144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Gistináttagjaldið er gjald fyrir tiltekna afmarkaða þjónustu sem gestir njóta í ferðaþjónustunni og er þar af leiðandi mælikvarði á þau viðskipti sem eru í gangi innan ferðaþjónustunnar. Þannig er hægt að átta sig betur á bæði umfangi ferðaþjónustunnar og að hvaða leyti hún er aflögufær til að veita tekjur inn í ríkissjóð.

Náttúrupassinn aftur á móti — þegar farið er að rukka fyrir aðgengi að stöðum, eins og ferðamannastöðum sem eru óskilgreindir raunverulega í þessu frumvarpi og orðið miklu opnara og óljósara hvað við er átt, þá er farið að rukka fyrir allt aðra hluti. Og svo ég svari þingmanninum í stuttu máli: Ég vil leita allra annarra leiða til að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi en að seilast í vasa almennings, Íslendinga sem eru skattgreiðendur og borga skatta og skyldur í þessu samfélagi sem eiga að veita tekjur inn í ríkissjóð og eiga að standa undir samfélagslegum verkefnum. Ég vil leita allra annarra leiða en að seilast í vasa þessara skattgreiðenda til að standa straum af uppbyggingu ferðamannastaða, því að það eru aðrir sem nýta þá ferðamannastaði. Þeir sem nýta ferðamannastaðina eiga, það er mín framtíðarhugsun, að standa straum af uppbyggingu þeirra og koma að samfélagslegri uppbyggingu af því tagi.