144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í lögunum hvernig fer geti menn ekki framvísað hinum svonefnda náttúrupassa. Lögð er á sekt og hún er aðfararhæf. Það er ekki flókið að framfylgja því og þingmaðurinn skilur nú hvað átt er við með aðfararhæfri sekt. Það er ekkert nýmæli í þessum lögum.

Hvað stöðumælana varðar og hvort þetta verði til þess að þeim fækki í 101 ættum við hv. þingmaður auðvitað að fagna, en því er kannski ekki að heilsa. En ég hef haft í huga marga ferðamannastaði þar sem menn koma til þess að leggja bílum sínum og fara í gönguferð: Hví eru ekki settir upp stöðumælar þar? Af hverju eru einungis stöðumælar í miðbænum en ekki á stöðum þar sem menn leggja, og jafnvel heilu rúturnar, í marga klukkutíma? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og að sjálfsögðu er eftirliti með því háttað eins og öðru eftirliti og menn þurfa ekki að gera það tortryggilegt. Hér er lögum framfylgt.

Ég verð að segja að mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt þegar hv. þingmenn lýsa því yfir að þeir ætli ekki að hlíta lögum. Hvað mætti ég segja, sem hef barist hérna gegn öllum skattahækkunum síðustu stjórnar, bensínskattinum, sem ég hef margoft rætt hér? Á ég að hætta að borga þessa skatta? Það er auðvitað ekki sæmandi þingmönnum að tala svona.

Hvað varðar þá frjálshyggju sem ég aðhyllist þá þekkir hv. þingmaður að ég tel að eignarrétturinn veiti eigendum heimild, eiganda jarðar á hverjum tíma, til að útfæra aðgang að sínu landi eins og hann vill. Ríkið er þar engin undantekning. Ríkið getur farið þessa leið, það getur farið aðrar leiðir, eins og ég hef bent á, en það er ekkert annað en eðlilegt að eigendur jarða (Forseti hringir.) hafi forræði yfir eignum sínum.