144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:59]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef sá sem ekki getur framvísað náttúrupassa þar sem honum er gert skylt að vera með náttúrupassa og ef sá hinn sami á ekki meira 15 þús. kr. í hreinum eignum, já, þá verður hann eignalaus samkvæmt þessu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 15 þús. kr. sekt, sem er aðfararhæf, þetta er eins og fyrir umferðarlagabrot eða töluvert lægra, held ég, en flest umferðarlagabrot.

Hvað varðar dæmi frá öðrum ríkjum er í Bandaríkjunum Yosemite-dalurinn og Grand Canyon, það þarf að greiða aðgangseyri að þeim görðum. Sjálf hef ég verið í garði og ekki einu sinni í garði heldur við þjóðveg í Argentínu þar sem ég var rukkuð um aðgang að hellaskoðun. Þar voru verðir sem voru svo valdsmannslegir að þeir litu út fyrir að vera opinberir starfsmenn. Ég held að þetta komi engum á óvart af því að það er alþekkt úti um allan heim að rukka fyrir aðgang að náttúruperlum í eigu ríkisins og einkaaðila.