144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist ég og hv. þm. Sigríður Andersen vera ósammála þegar kemur að almannaréttinum og gildi hans fyrir okkur sem búum í þessu landi.

Hv. þingmaður segir að hún geti ekki bent á þessa 10–12 ferðamannastaði sem hæstv. ráðherra segir að eigi að vera undir hvað varðar gjaldskyldu náttúrupassans. Ég verð að vera sammála því að ég átta mig heldur ekki alveg á því hvaða 10–12 staðir þetta eru. Er það réttur skilningur hjá mér að hv. þingmaður telji það nánast aukaatriði vegna þess að almannarétturinn skipti ekki máli og þess vegna sé bara allt í lagi að innheimta gjald fyrir náttúrupassann eins og á að gera samkvæmt þessu frumvarpi? Mér finnst skilningur á því sem hv. þingmenn eru að tala um í því efni vera grundvallaratriði fyrir umræðuna sem á eftir kemur svo að við séum hérna að tala um sama hlutinn. Mig langar að biðja hv. þingmann um að fara aðeins betur yfir þetta. Skiptir almannarétturinn máli, hans langa saga eða erum við til í að kasta honum út um gluggann til þess að fara í þessa innheimtu?