144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:03]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður og ég séum ósammála um nokkurn skapaðan hlut í þessu máli, það á bara eftir að koma í ljós.

Hvað almannaréttinn varðar hins vegar þá er alveg ljóst að það er ekki verið að ganga á hann á nokkurn hátt. Hæstv. ráðherra lýsti því í framsögu sinni að þetta skerti ekki rétt manna til að fara í berjamó, fara á rjúpu og hvað það nú er sem menn gera á annarra manna löndum eða í þjóðlendum. Það er ekki verið að raska með þessu frumvarpi þeim rétti.

Ég er hlynnt almannaréttinum. Ég er alveg sammála því að menn geti farið um ógirt land án þess að skemma nokkurn skapaðan hlut, eins og hefur verið og enginn hefur nokkurn tíma gert ágreining um hér á landi. Almannarétturinn hefur hins vegar verið skertur, það hefur komið fyrir. Það hefur þurft að gera það út af náttúruverndarsjónarmiðum. Það hafa komið rigningar á ýmsum stöðum og vinsælir ferðamannastaðir hafa verið lokaðir um lengri eða skemmri tíma til þess að vernda náttúruna. Þetta frumvarp felur ekki í sér neina skerðingu á almannarétti.

Eins og ég tók fram í máli mínu þá tel ég nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um það hvaða staðir eigi að falla undir þennan náttúrupassa í lögum, að það sé ekki bara á einhverjum lista hjá einhverri stofnun úti í bæ. Ég teldi að það væri meiri bragur að því. Ég ætla ekki að fullyrða á þessu stigi hvort ég telji þurfa einhvers konar stjórnarskrárbundna skyldu sem mundi kveða fastar að orði um það, en ég tel í öllu falli brag að því að tiltaka hvaða staðir þetta eru í frumvarpinu.