144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég held að það sé alveg ljóst að við lítum almannaréttinn svolítið ólíkum augum og túlkum hann greinilega með dálítið ólíkum hætti. Minn skilningur er sá að almannarétturinn eigi í raun að ná til alls landsins. Vissulega eru dæmi ákveðnar takmarkanir í þjóðgörðum. Ég tel hér vera um annars konar mál að ræða.

Það er annað sem mig langar að inna hv. þingmanninn eftir. Burt séð frá öllum ágreiningi um almannarétt er ég sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns um efasemdir um hvort þetta frumvarp næði tilætluðum árangri til verndar eða uppbyggingar ferðamannastaða. Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn: Hversu vel heldurðu að þessi innheimta muni ganga praktískt séð? (Forseti hringir.) Mun okkur takast með þessu frumvarpi að ná í peninga til að byggja upp (Forseti hringir.) þá innviði sem ég held að við séum sammála (Forseti hringir.) um að þurfi að gera?