144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur verið þekkt að því að vera með munninn fullan af frelsi, ég hef oft verið henni sammála um það. Þess vegna finnst mér hún tala heldur kuldalega um þá frelsisskerðingu sem auðvitað felst í frumvarpinu. Það er ekki hægt fyrir hv. þingmann að beita þeim rökum að tímabundið hafi stundum þurft að loka ferðamannastöðum og það hafi verið skerðing á frelsinu. Þarna er verið að tala um allsherjarskerðingu, menn þurfa, til þess að njóta náttúrunnar, að greiða fyrir það. Ég er fullkomlega ósammála því viðhorfi hv. þingmanns.

Að öðru leyti, og kemur kannski mörgum á óvart, er ég sammála mjög mörgu sem hv. þingmaður sagði. Ég er til dæmis sammála þeirri gagnrýni sem mér fannst vera nokkuð skörp á frumvarpið. Hv. þingmaður benti meðal annars á að það væri óskýrt um lykilatriði. Hvað kallar hv. þingmaður það þegar lykilplagg er óskýrt? Við mundum kalla það handarbakavinnu, en ég er ekkert að biðja hv. þingmann um að taka undir með mér um það.

Hv. þingmaður hefur líka margsinnis í ræðu og riti talað um að nauðsynlegt sé þegar menn ræða umbúnað atvinnugreina að hlusta á þær sjálfar. Hv. þingmaður spurði hér einn annan þingmann: Hvaða viljið þið þá í staðinn, þið verðið þá að koma með stefnu? Hvað með að hlusta á atvinnulífið? Hvað með að hlusta á greinina sem er undir í þessu máli? Hún hefur skýra stefnu um þetta. Hún vill að meginhluta til taka þessa peninga í gegnum gistináttagjald. Ég tel að það sé vel mögulegt og færð hafa verið rök fyrir því af öðrum hv. þingmanni. Hv. þingmaður sagði að það væri tafsamt. Það er hægt að leiðrétta þetta, það er hægt að gera það.

Sömuleiðis er ég henni sammála um að það sé sjálfsagt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og beina á ferðamannastöðum, eins og t.d. aðgang að salernum, aðgang að bílastæðum. Ég er alveg reiðubúinn til þess að samþykkja slíkt. En að öðru leyti get ég ekki annað séð en að hér sé um skerðingu á almannaréttinum að ræða og mér fannst það kaldranalegt hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) að segja: Ja, þá verður ykkur bara stungið í fangelsi. Það getur vel verið að erlendir ferðamenn verði ákaflega löghlýðnir í þessum efnum. (Forseti hringir.) En ég held að það verði þúsundir Íslendinga sem ekki muni hlíta þessu, vegna þess að menn líta á þetta (Forseti hringir.) sem helgan rétt sem hefur verið til staðar allt frá því að land var numið.