144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði: Hver á að borga? Svarið við því liggur í ræðu hennar áðan. Hv. þingmaður kom þar með fínar hugmyndir sem hægt er að vinna úr, fólust í því að greinin ætti t.d. að greiða það í gegnum virðisaukaskatt. Ég skildi mál hv. þingmanns þannig að hún teldi eðlilegt að þessi grein, sem vissulega er ekki lengur fiðraður ungi heldur fugl sem er kominn með flugfjaðrir og hefur tekið flugið, mundi til jafns við aðrar atvinnugreinar í framtíðinni greiða virðisaukaskatt. Það er sjónarmið, það er ein leið. Miklu betri leið en sú sem hér er farin.

Það sem skiptir máli, finnst mér, er að við hlustum á atvinnugreinina. Hvað vill hún? Við vitum að minnsta kosti hvað hún vill ekki. Hún vill ekki reisupassa hæstv. ráðherra. Hún vill að uppistöðu til fara leið gistináttagjaldsins. Þegar hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í morgun að 17 aðilar hefðu mótmælt yfirlýsingu SAF á sínum tíma þá var það rétt hjá henni. (Forseti hringir.) En þeir vildu ekki reisupassann. Þeir vildu taka upp komugjald. En ég er sammála afstöðu hv. þingmanns í því efni líka.