144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef borgarar þessa lands neita að fara að lögum, það eru ýmsir skattar sem mér líkar ekkert voðalega vel við. Ég get alveg hugsað mér að neita að borga þá. Ég bara geri það ekki, vegna þess að okkur ber að fara að lögum. Ég skil ekkert í hv. þingmönnum sem segja hér aftur og aftur að fólk ætli ekki að fara að lögum. Við erum hér að setja lög, þ.e. meiri hluti Alþingis. Mér finnst það bara mjög alvarlegt þegar menn segja að fólk eigi ekki að fara að lögum.

Ef menn eiga ekki þennan passa þá borga þeir 15 þús. kr. Það er nú heldur engin goðgá, ekki þannig séð, það er varla að maður fari í matvöruverslun til að versla inn eða kaupi sér yfirleitt nokkurn skapaðan hlut … (Gripið fram í.) Ég sé ekki að það eigi að velta neinum manni út úr húsinu sínu. Mér finnst þetta vera hræðsluáróður af verstu tegund og það er verið að spóla upp einhverja vitleysu, ég mundi segja það, herra forseti; 500 kr. á ári er allt í einu orðið 15 þús. kr. og menn missa húsið sitt.