144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu um þetta mál. Mig langar aðeins að biðja hann um að velta möguleikum upp með mér. Ef sú leið yrði farin — eins og ferðaþjónustan kallar eftir og hv. þingmaður talaði fyrir hér áðan, og fleiri þingmenn hafa gert í dag, að halda áfram með gistináttagjaldið, hækkum það bara og gerum á því örlitlar breytingar — þá breytir það samt ekki þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. hvernig við getum komið í veg fyrir að menn fari að taka gjöld á einkalóðum, á einkajörðum. Séu landsvæði í einkaeigu eru menn farnir að taka þessi gjöld óháð umræddu gistináttagjaldi og ég veit að við hv. þingmaður höfum bæði áhuga á að breyta því. Það er þá spurning hvernig við stígum næstu skref í átt að því að koma í veg fyrir þá gjaldtöku vegna þess að ég tel það skipta miklu máli. Þetta er fyrsta spurning.

Mig langar að biðja hv. þingmann að svara annarri spurningu. Eins og hann finn ég ekki neitt um það í frumvarpinu hvaða svæði falla undir þennan náttúrupassa. Hér segir bara:

„Allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón opinberra aðila eiga sjálfkrafa aðild að náttúrupassa.“

Það er vísað í lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn, en það er frumvarp sem líka liggur fyrir. Í því segir hið sama:

„Ferðamannaleiðir, ferðamannastaðir og ferðamannasvæði í eigu hins opinbera … falla sjálfkrafa undir tólf ára stefnumarkandi landsáætlun.“

Það þyrfti kannski að koma betur fram við hvað er átt. Þurfum við að vera með náttúrupassa þegar við erum á Esjunni? Þurfum við að vera með náttúrupassa þegar við erum að fara á gönguleiðir á Reykjanesi? Ég tel að menn geti ekki haldið áfram með þetta nema skýra betur við hvað er átt.