144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Mér finnst frumvarpið bera þess merki að vera flausturslega unnið að því leyti að ekki er tekið á þessum stóru álitamálum. Við vitum það ekki í gegnum þetta frumvarp hvar nákvæmlega þetta gildir, við vitum það ekki. Við vitum ekki heldur hvað menn ætla að gera við einkaaðilana, þeir eru bara skildir eftir, þróunin mun því halda áfram á þann veg að menn munu taka gjöld inn á einstaka svæði og þannig mætti lengi telja.

Mér fannst líka áhugavert það sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni varðandi það hvaða stöðu fulltrúar Ferðamálastofu hafa til að krefjast þess að fá að sjá hvort fólk sé með passa eða ekki. Það er svo margt í þessu, þetta er óskaplega götótt frumvarp.

Ég furða mig á því að hæstv. ráðherra skuli leggja hart að þinginu að reyna að klára þetta á þessu vorþingi með þeim hætti sem hér er. Mér er það til efs að við getum gert það. Það finnst mér miður vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því að finna leiðir til að fjármagna þessa uppbyggingu. Það er mjög brýnt að gera það sem allra fyrst. Þá finnst mér sérkennilegt að hæstv. ráðherra skuli ákveða að fara þessa gríðarlega umdeildu leið vitandi það að hún mun eiga mjög erfiða leið í gegnum þingið. Og þá stöndum við hvar? Með ekkert. Það er vandinn.

Ég hefði viljað skilja það eftir hjá hv. þingmanni og þeim þingmönnum sem hér eru í salnum að við verðum samt að reyna á þessu vorþingi að finna leiðir til að fjármagna þetta þó að ráðherrann hafi lagt fram ónýtt frumvarp. Það er spurning hvort við þingmenn eigum að mynda samstöðu um leið sem virkar.