144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Það er mjög brýnt að komast að landi í þessu máli og við megum ekki missa meiri tíma. Við megum ekki missa fleiri ár í súginn þannig að það þarf að ljúka þessum gjaldtökumálum og koma skynsamlegum botni undir þau. Það þarf að ákveða hvað verður gert eða ekki gert í sumar í sambandi við ástandið og koma þessum málum á koppinn til frambúðar.

Ég held að meginveikleiki þessarar nálgunar sé það að gera hinn einstaka ferðamann að andlagi gjaldtökunnar, jafnvel Íslending á ferð um sitt eigið land á eigin vegum. Tökum bara gamlan bónda norðan úr landi sem hefur ekki mikið troðið Þingvöllum eða Gullfossi og Geysi um tær á sinni ævi en langar að skreppa suður og sjá þessa staði. Á að fara að taka af honum gjald ef hann kemur kannski einu sinni eða tvisvar á ævinni á Þingvelli? Það bara gengur ekki upp og verður aldrei, það er bara þannig.

Varðandi það hvaða svæði eiga að falla þarna undir — eins og ég taldi mig vera að reyna að sýna fram á í framsögu þá fór ég einmitt að skoða þetta og lagðist í að reyna að skilja þetta og spyr hvar lagastoðin sé fyrir því sem ráðherra segir okkur núna að verði, þ.e. að valin verði út 10 til 12 svæði þar sem eigi að hafa passann. Það sé ekki þannig, eins og ráða mætti af 4. gr., að allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjá opinberra aðila eigi sjálfkrafa aðild að náttúrupassa. Ókei, ef ekki á að breyta þeirri grein þá er það þannig.

Er einhvers staðar talað um að samt þurfi ekki að sýna passann nema sums staðar? Nei. Er einhvers staðar heimild í frumvarpinu fyrir ráðherrann að velja út staði og segja: Hér þarf að hafa passann? Nei, það er ekki reglugerðarheimild í þeim efnum eða nokkur skapaður hlutur. Þvert á móti lokar 6. gr. málinu. Hún skyldar passann á öll svæði landsins. Eigi það að verða framkvæmdin þá þarf einnig að breyta frumvarpinu að því leyti. Þetta er bara eitt af nokkrum götum sem þarna eru augljóslega og færir manni heim sanninn um að frumvarpið hefur endað sem einhver bræðingur. Við vitum öll að það er mikið búið að ganga á og þetta er svo sem ekkert einfalt, en frumvarpið hefur endað sem ónýtur uppstúfur.