144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ónýtur uppstúfur, það var ágætisendir á ræðu að segja að þetta frumvarp hafi endað þannig. Það er ágætt að rifja upp í upphafi ræðu minnar það sem hefur aðeins verið reifað hér í dag. Það er sú meinloka hæstv. ráðherra að vilja ekki setja fjármuni í þetta í gegnum fjárlög, þrátt fyrir að hafa lent í því á síðasta ári að vera farin að greiða út peninga sem hún hafði ekki fengið heimild fyrir hjá þinginu og koma svo með skottið á milli lappanna í fjáraukalögum og fá á fjórða hundrað milljónir í sjóðinn. Við í minni hlutanum í fjárlaganefnd ræddum þetta ítrekað í nefndinni. Þar er mikið talað um aga í ríkisfjármálum og annað slíkt og fannst okkur þetta ekki bera merki um það, þegar frumvarp um náttúrupassa var ekki komið fram og ekkert lá fyrir um hvort það yrði samþykkt frekar en að því yrði synjað, eins og málin stóðu þá og standa enn. Þetta eru afskaplega sérkennileg vinnubrögð, jafnvel þótt við gefum okkur að frumvarpið verði samþykkt verður það aldrei fyrr en í vor eða í byrjun sumars og þá mundum við vilja vera byrjuð á framkvæmdum víða. Ráðherrann hefði í það minnsta átt að fjármagna þetta hluta úr ári þótt hún hefði ekki farið fram á meira í beiðni sinni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Mig langar að fara í nokkur atriði. Það hefur margt gott komið fram í dag og það er mjög gott að skiptast á skoðunum um svona stórt og mikið mál. Ég er alveg jafn sannfærð um það og flestir að það er hægara sagt en gert að komast að niðurstöðu um eina leið sem allir eru sáttir við. Ég held að það sé með það eins og svo margt annað, það verður auðvitað að mætast einhvers staðar. Hér hefur verið rakið vel að þessi leið virðist ekki vera til þess fallin og frekar fleiri en færri sem telja að hún sé ekki góð.

Það er verið að velta því fyrir sér hver skilgreiningin er í lögunum. Ráðherra vitnaði í náttúruverndarlögin í morgun og taldi að þetta væri sambærilegt. Það er þó aldeilis ágreiningur um það því að þar er talað um náttúruverndarsvæði, og sú skilgreining er mjög skýrt afmörkuð, bæði í lögum og reglugerðum, en í þessu frumvarpi er hins vegar talað um ferðamannastaði. Það er í raun engin ítarleg skilgreining. Ég ræddi það fyrr í dag varðandi málið sem á að vera á dagskrá síðar og vísað er til um landsáætlun um uppbyggingu innviða að þar er heldur ekkert skilgreint — aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru hans og sögu, það er náttúrlega opið upp á gátt. Eins er hvað veldur því að einhver staður einhvers staðar á landinu fær þessa skilgreiningu og kemst þess vegna inn á blað yfir stað þar sem nota má náttúrupassa. Fyrir það fyrsta er þessi skilgreining allt of opin. Við ræddum áðan í andsvörum um sveitarfélag eða einhvern annan stað og ég bý á stað sem telst vera vaxandi ferðamannastaður, Fjallabyggð. Við skilgreinum okkur sem ferðamannastað af því að túrisminn hefur aukist mikið og sérstaklega með tilkomu Héðinsfjarðaganga. Því hefur verið skotið inn hvort Ólafsfjarðarmúli og sólsetrið yrðu þá náttúruminjar sem mætti rukka fyrir ef fólk væri að skreppa í heimsókn. Hvar á að stoppa? Hver á að ákveða að svo sé ekki? Ekki að það sé endilega hagur sveitarfélaga að rukka út um dittinn og dattinn, við gerum okkur grein fyrir því, en þetta er samt eitt af því sem er allt of opið og óskilgreint.

Ég ræddi í dag hvernig gestgjafar við viljum vera, hvaða ímynd við viljum að erlendir ferðamenn hafi af okkur þegar landið fer að vera upplifun markaðsvæðingarinnar. Fólk kemur hingað til að skoða ósnortna náttúru. Við vitum að samkvæmt könnunum er ósnortin náttúra það sem flestir leita eftir og þá er ímyndin sem við viljum selja ekki sú að við rukkum fólk fyrir að fá að horfa á þá ósnortnu náttúru.

Svo er það hitt málið. Viljum við alls staðar leggja mikið í að byggja upp trépalla, handrið og eitthvað slíkt, ef við orðum það eins og ráðherra gerði í morgun? Það er enginn að tala um að öryggis sé ekki gætt en það er ekki víst að æskilegt sé að þess sjáist merki að fólk hafi verið alls staðar, það séu manngerðir hlutir mjög víða. Það er hægt að vernda náttúruna á margvíslegan hátt og það felst ekki endilega í þessu. Stígar geta verið mjög einfaldir og þurfa ekki að vera uppbyggðir á þann hátt sem ráðherra nefndi í morgun. Ég held að þetta sé ekki góð leið til að markaðssetja landið okkar eða bæta ímynd okkar sem ferðamannalands. Við heyrðum það strax á umræðunni í dag að okkur greinir mjög mikið á um hvar passinn eigi við og hvar ekki. Þannig er það líka með almannaréttinn, við höfum ekki sama skilning á honum. Það kom fram í andsvörum í dag að fólk taldi sig skilja hann á sama hátt en raunin var allt önnur þegar maður hlustaði á málflutninginn, af því að frjáls og heimil för um landið þýðir að ekki eigi að þurfa að greiða sérstaklega fyrir að ganga einhvers staðar.

Þetta frumvarp er hamlandi á þann hátt að ef við förum um land í opinberri eigu, sem ráðherra ákveður með reglugerð eða einhverju slíku, þurfum við að hafa náttúrupassa upp á vasann. Og ef við kjósum að keyra í gegn eða ákveðum að stoppa einhverra hluta vegna verðum við rukkuð fyrir það. Það er margt óljóst í þessu frumvarpi.

Varðandi eftirlitið og Ferðamálastofu má velta því fyrir sér hvort það séu til lagaheimildir fyrir þessa náttúruverði eða fyrir starfsmenn Ferðamálastofu til að sinna því sem þeir ætla að sinna. Það kemur alla vega ekki fram hér að svo sé. Svo veltir maður fyrir sér: Á það að vera hlutverk Ferðamálastofu? Það er Íslandsstofa sem markaðssetur landið og það er búið að setja fullt af peningum af hálfu ríkisins til Íslandsstofu til að markaðssetja Ísland og hefur það gefist hreint ágætlega. Af hverju er henni ekki falið þetta? Það væri mun skynsamlegra.

Síðan er það hitt álitamálið, ef einkaaðili, af því að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir það, vill ekki taka þátt í náttúrupassanum. Það er örugglega þannig að á mörgum þeim stöðum þar sem ferðamannafjöldinn er mikill hefur einkaaðili mun meira upp úr því að rukka sjálfur og ákveða sitt gjald í staðinn fyrir að taka þátt í náttúrupassanum. Það er alveg á hreinu. Það er ekki hvati til þess en það er hvati til að hafa fólk á launum og reyna að hala inn ferðamenn, bæði erlenda og innlenda. Þessi markaðsvæðing á landinu okkar er ekki góð.

Það er líka skilgreiningin á innviðum. Landeigendur eru ekkert endilega skyldugir til að byggja upp tiltekna aðstöðu þótt þeir rukki. Það er ekki þannig þótt auðvitað sé skynsamlegt af þeim að gera það. En það er ekki skylda. Það er mjög margt sem er ekki leitt til lykta í þessu frumvarpi.

Ég hef þá trú að ferðaþjónustan eigi svolítið sjálf að bera hitann og þungann af því að greiða fyrir þá auðlind sem landið okkar er og hún hefur tekjur af. Þeir gætu meðal annars markaðssett fyrirtæki sitt með því að auglýsa að þeir leggi mikið til umhverfismála eða eitthvað slíkt. Það getur alveg orðið til þess að auka strauminn til þeirra frekar en margt annað.

Það hefur aðeins verið rætt um gistináttaskattinn og er fullyrt í frumvarpinu að hann hafi neikvæð áhrif á eftirspurn eftir gistingu í landinu. Á sama tíma segir ráðherra að fólk sé tilbúið til að borga miklu meira en 1.500 kr. fyrir náttúrupassa. Þetta fer ekki alveg saman. Ég held að það sé fyrst og fremst flugfargjaldið til landsins sem fólk horfir til, stórar fjölskyldur og aðrir. Eins hefur verið margrakið í dag er það þannig þegar við förum til útlanda að reikningar eru sundurliðaðir ítarlega og við borgum alls konar gjöld, oftast í gegnum gististaðina þar sem við dveljum eða í gegnum flugmiðann. Það kemur fram á vefnum túristi.is að gistináttagjaldið var að meðaltali 416 kr. í borgum þegar við settum það á 2011. Við erum að reikna hérna 100 kr. Það þarf að útfæra, það er alveg ljóst. Þetta er ekki í lagi eins og það er og ég held að skynsamlegt væri að útfæra það.

Tími minn er að verða búinn og mig langar mig að fara aðeins í umsögn fjármálaráðuneytisins. Mér finnst hún segja ansi mikið og meðal annars koma þeir inn á stjórnvaldssektina, 15 þúsund kr., og að það eigi að taka gildi strax 1. september 2015. Það er hins vegar ekkert komið inn á hvernig eigi að fylgja því eftir og ráðherra svaraði því ekki í morgun þegar hún var spurð hvað gerist ef menn borga ekki sektina. Því hefur ekki verið svarað og mér finnst ótækt að ráðherra geri það ekki.

Ég ætla að grípa niður í frumvarpið, í umsögn ráðuneytis. Þar kemur fram að ekki liggi fyrir heildarstefna stjórnvalda um hvaða staðir í umsjón ríkis og sveitarfélaga eigi að byggjast upp sem ferðamannastaðir í framtíðinni. Síðan er vísað í landsáætlun um uppbyggingu innviða. Í því sem kemur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er talað um kostnaðinn, stofnkostnað Ferðamálastofu, þ.e. að uppsetning greiðslukerfis, launakostnaður, auglýsingar, kynningar og annar kostnaður verði 92 millj. kr. og hann falli til á árinu 2015. Svo er talað um 60 millj. kr. framlag til kynningar og markaðssetningar, að kostnaðurinn við þetta og árlega umsýslu megi að hámarki nema 3,5% af tekjunum og síðan eru athugasemdir við það hvernig þetta er framkvæmt.

Í lokin segir hérna, með leyfi forseta: „Ekki hefur verið gert ráð fyrir tekjum af náttúrupassa né ráðstöfun þeirra til útgjalda við rekstur og framkvæmdir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 en þessi áform miðast við að tekjur og útgjöld haldist í hendur þannig að upptaka náttúrupassans raski ekki afkomu ríkissjóðs.“

Þar á undan er rakið að þetta sé ekki nógu vel undirbyggt. Ég held að flest okkar sem hafa tekið til máls í dag séum sammála því að málið sé ekki nógu vel undirbyggt og að hægt sé að gera þetta mun betur. Ég trúi því, af því að við heyrum að það er ekki samhljómur á milli flokka hér í þinginu, að frumvarpið nái ekki í gegn nema með miklum breytingum.