144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ágæta og uppbyggilega ræðu. Hún minntist á einn hlut sem lítið hefur verið ræddur hér í dag. Hvað er það sem ræður því að menn velja land til að ferðast um? Fyrst og fremst farmiðarnir, fargjaldið. Það er dýrt og þar koma komugjöldin inn í, komugjöldin lesta fargjaldið. Í öðru lagi er það gisting og þar kemur gistináttagjaldið og lestar kostnaðinn. Hvort tveggja getur verið hættulegt ef fer að slakna á ferðamannastraumi til Íslands sem gerist örugglega einhvern tíma. Við þurfum því að gæta okkar mjög vel í þeim atriðum sem hv. þingmaður benti einmitt á.

Og hvað er það þá sem menn horfa ekki á þegar þeir ferðast til útlanda? Það er allur hinn kostnaðurinn. Það er maturinn, það eru ferðir, það eru aðgöngumiðar, menn horfa ekki á það. Og það sem menn eru að tala um í þessu sambandi eru ekki nema 10 dollarar rétt rúmlega, þetta eru engin ósköp, eða 10 evrur tæplega. Og sektin er 100 dollarar eða 100 evrur, það eru öll ósköpin.

Ég hugsa að það verði mjög auðvelt að selja ferðamönnum þetta. Og hvar gerist það? Nú á öllum hótelum þar sem þeir mæta eða í rútunni frá Keflavík. Þar verði seldur ferðamannapassi og fólki sagt: Ætlar þú að fara að skoða Gullfoss og Geysi, kauptu þá passa, hann er til sölu hérna. Ekkert mál.

Hv. þingmaður spurði líka hvaða staðir væru ferðamannastaðir. Það er í 9. gr., heimild til reglugerðar fyrir ráðherra, hann mun skilgreina hvað eru ferðamannastaðir. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni með alla þessa trépalla, handrið og allt þetta en þetta eru óhjákvæmilegar afleiðingar af gífurlegum ferðamannastraumi. Mér finnst óhugnanlegt að koma á Þingvelli og sjá þetta járnmonster þar.