144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar og ágæt orð.

Jú, víst er það þannig að hér var sett á sínum tíma í tíð síðustu ríkisstjórnar góð framkvæmdaráætlun sem að hluta til var ekki innstæða fyrir, en það er annað mál. Það er búið að setja mjög drjúgt núna til þessa málaflokks, eins og í fjáraukalögum í fyrra. En vegna þess að spurt var sérstaklega út í gistináttagjaldið þá get ég sagt að ég er svarinn andstæðingur gistináttagjalds. Hvers vegna? Eins og fram kom í ræðu minni áðan er það mjög flókið í innheimtu, það eru mjög margir innheimtuaðilar. Skilvirkni þess er ekki góð. Ef maður horfir á heildarupphæð þess hefur það aldrei síðan því var komið á á sínum tíma skilað því sem til var ætlast. Ég var starfandi í umhverfisráðuneytinu á þeim tíma sem þetta gjald var sett á og ég man eftir því að reiknað var með því að það mundi skila 320 milljónum á fyrsta ári, en það skilaði 80. Þegar einhver skattur sýnir sig að virka alls ekki og skilar sér alls ekki, þá vil ég ekki framlengja hann. Mér finnst það bara ekki rétt. Því finnst mér nærtækara að innheimta gjald sem er tekið af færri aðilum sem er auðveldara í innheimtu, ódýrara að innheimta, skilvirkara, skilar sér strax, mér finnst það einfaldlega vænlegra til árangurs.

Ég tek undir með hv. þingmanni og það kom reyndar fram í minni ræðu að við Íslendingar hefðum átt að vera fyrir löngu byrjaðir að veita fé til þessa málaflokks til að byggja upp innviði. Við erum ekki búin að gera það, en við skulum þá bara girða okkur í brók og sameinast um að koma þessu máli þannig fyrir að það verði til farsældar fyrir (Forseti hringir.) þessa grein.