144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst ágætt hvernig hann fór með opnum huga í gegnum hvernig best væri að framkvæma fjármögnun á uppbyggingu þessara ferðamannastaða. Ég er sammála honum að það er sorglegt, ég hef sjálf oft farið Laugaveginn og komið í Landmannalaugar, hversu vel maður sér áganginn á þessum stöðum. Það er líka annað sem ég hef oft velt fyrir mér og tel að sé eitthvað sem við ættum að skoða betur, sem er hversu lítið er rukkað fyrir alla þá þjónustu sem er veitt á þessum stöðum.

Tökum dæmi. Einu skiptin sem maður leggur eitthvað út er í skála þar sem maður gistir, en á leiðinni ertu samt búinn að nota ýmsa þjónustu, þú hefur nýtt þér salernisaðstöðu í skálum þar sem þú stoppar í skemmri tíma, þú skráir þig í bækur þannig að hægt sé að fylgjast með ferðum þínum og vita að þú hafir skilað þér heill á húfi alla leið o.s.frv. Fólk fær heilmikla þjónustu fyrir ekki neitt. Þetta er kannski eitthvað sem menn þurfa aðeins að skoða, hvort ekki sé hægt í auknum mæli að taka fé fyrir alla þá þjónustu sem veitt er. Þarna er algjörlega óplægður akur að mínu viti.

Síðan langar mig að velta því upp að mér finnst skipta máli að við reynum að ná sama um það á þessu þingi að fjármagna framkvæmdajóðinn þannig að menn geti farið í alvöruframkvæmdir í sumar. Mér finnst margt áhugavert sem kom fram í máli hv. þingmanns en ég náði því samt ekki alveg hvaða leið hann vill fara. Er hv. þingmaður til í að samþykkja þennan náttúrupassa eins og hann liggur fyrir, eða heyrði ég hann segja að hann vildi heldur að við tækjum gjald á flugið?