144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að við þingmenn erum sammála um nauðsyn þess að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, en þetta snýst um það hvernig við gerum það. Mér heyrist vera grundvallarágreiningur eða ólíkur skilningur í gangi. Þess vegna þurfum við að ræða þetta mál mjög vel því að það ristir djúpt.

Hv. þingmaður sagði hér áðan að hann teldi náttúrupassann vera þá leið sem síst bitnaði á Íslendingum og átti þá við fjárhagslega ef ég skildi hann rétt. Hann sagði nefnilega að náttúrupassi væri aðgangur að þjóðgarði. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er eðlilegt að við íbúar þjóðgarðsins, Íslendingar, borgum sérstaklega fyrir að búa hérna með náttúrupassa ofan á aðra skatta sem við erum að borga? Í mínum huga erum við komin í svolítið skrýtna flækju. Hv. þingmaður sagði líka að honum væri almannarétturinn dýrmætur. Ég sé ekki hvernig þetta rímar allt saman þannig að ég vil biðja hv. þingmann um að skýra þetta aðeins betur út fyrir mér.