144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég rifja upp það sem ég var að kíkja á hér í dag þá get ég ekki séð að gert sé ráð fyrir einhverjum fjármunum í verkefnið sem slíkt, þ.e. eftirlitið, kynninguna og allt það, en það getur auðvitað verið að menn taki þá frá Ferðamálstofu og láti eitthvað annað sitja á hakanum. Það er ekki þar með sagt að þessir peningar séu ekki þarna, en það er ekki beinlínis gert ráð fyrir einhverri upphæð. Það var til dæmis gert ráð fyrir peningum í flutning Fiskistofu. Menn sáu það fyrir. Þetta virðist ekki fjármagnað. Ég held að það væri gott ef hæstv. ráðherra eða einhver sem þekkir málið betur mundi svara fyrir það.

Þjóðgarðarnir eru áhyggjuefni og sérstaklega Vatnajökulsþjóðgarður sem er dýr í rekstri og hefur verið rekinn með halla. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðan er þar, en hann hefur verið undir eftirliti. Það er gríðarlega mikilvægt að peningar séu lagðir í þjóðgarðana. Ég held að þetta hljóti að vera einhver mistök, að sjálfsögðu hljóta þeir að vera skilgreindir sem ferðamannastaðir og ættu þá að falla þarna undir.

Eins veltir maður fyrir sér hugmyndinni ef náttúrupassinn kemst í gagnið í sumar. Mig minnir að ekki sé gert ráð fyrir þessum tekjum en tekjuhlutinn er ekki mín sterkasta hlið. Ég man ekki hvort er gert ráð fyrir tekjunum af náttúrupassanum. Kannski er hugmyndin sú að ef einhverjar tekjur nást inn í ár og einhver kostnaður verður að þetta verði gert upp á fjáraukalögum. Það er það sem ég ímynda mér.