144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þennan frábæra punkt. Ég hafði einmitt einhvers staðar nóterað þetta hjá mér. Staðreyndin er sú, ef ég man rétt, að til þess að geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt þarf að versla fyrir meira en 4 þús. kr. Mér fannst ég hafa lesið það í einhverju tekjuöflunarfrumvarpi fyrir jól að hugmyndin væri að hækka þetta upp í 10 þús. kr. þannig að til þess að fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem ferðamaður hér á landi þá þurfti hann að kaupa fyrir meira en 10 þús. kr. Bara við að hækka markið úr 4 þús. kr. upp í 10 þús. kr. mundi strax skila því að minni peningar færu úr landi, meiri virðisauki yrði eftir hér.

Þegar hv. þingmaður nefnir þetta held ég að þetta sé tilefni í óundirbúna fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Kannski tók þetta gildi 1. janúar. Ég man að ég las þetta og fannst þetta vera mjög gáfuleg ráðstöfun og í tíma tekin. Hugsanlega er 10 þús. kr. of lágt en það er strax skref í rétta átt. Við viljum líka hvetja til verslunar á Íslandi þannig að ég er ekki á móti þeirri leið að endurgreiða virðisauka.

Samsetta leiðin finnst mér vera gott hugtak yfir það sem ég var að reyna að lýsa hérna áðan, að við reynum að fá tekjur þar sem við erum nú þegar með kerfi. Það er rétt, við erum að búa til apparat, nýtt opinbert apparat, í kringum eitthvað sem mun skila okkur milljarði. Reyndar verður spennandi að sjá hverju það skilar, en um milljarði ef þær áætlanir sem við höfum í dag ganga eftir. En ég held að það sé bara verkefni hjá mér og hv. þingmanni að kanna hvar þetta mál stendur með virðisaukaskattinn og endurgreiðsluna.