144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að sitja hérna, fylgjast með umræðunni og taka þátt. Mér finnst það til eftirbreytni og skipta miklu máli að við höfum tækifæri til að ræða saman.

Það sem ég hef áhyggjur af og mig langar aðeins að bera undir ráðherra er að þeir sem ákveða að vera ekki með í náttúrupassanum geti eftir sem áður rukkað. Það er það sem mér finnst óþægilegast við þetta. Er eitthvað hægt að koma í veg fyrir það eða er hægt að setja á þá kröfu um að rukka fyrir einhverja veitta þjónustu sem er þá jafnvel bílastæðis- eða salernisþjónusta eða eitthvað slíkt? Ég er ekkert brjálæðislega neikvæð gagnvart náttúrupassanum. Hann er ekki fullkominn, við erum sammála um það, en þetta er bara mjög erfitt mál og það er eins og enginn hagsmunaaðili í geiranum vilji taka þetta á sig. Veitingastaðirnir mundu ekki vilja innheimta þetta gjald, hótelin og gistiheimilin eru ekkert sérstaklega spennt fyrir að innheimta gjaldið eða flugfélögin eða bílaleigurnar eða hver sem það er vegna þess að þó að þetta sé neytendaskattur og bara spurning um að innheimta gjaldið og koma því til ríkisins leggst þetta samt ofan á verðið og getur haft áhrif á eftirspurnina. Það er bara þannig og þarna erum við þá að reyna að rukka ferðamanninn.

Ég er jákvæðari núna en ég var í morgun. Kannski verð ég orðin aftur neikvæð í 2. umr. en ég hef áhyggjur af þessu með að það geti orðið svolítið eins og villta vestrið varðandi það að margir segi bara: Heyrðu, ég ætla ekkert að vera með í þessu, ég get fengið meira út úr því að rukka ferðamennina sem koma. Er einhvern veginn hægt að stemma stigu við því?