144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfsskilyrði þekkingarfyrirtækja.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið áhyggjuefni þegar horft er yfir listann yfir 40 stærstu gjaldendur opinberra gjalda lögaðila á Íslandi að sjá þar einungis tvö þekkingarfyrirtæki, Marel og Össur, sem bæði eru yfir 20 ára gömul. Við sjáum enga nýliðun í þessum hópi, þvert á móti sjáum við að hættan er sú að fyrirtækin vaxi erlendis eins og staðan er núna, en haldi frekar lítilli starfsemi hér á landi, og þau fyrirtæki sem þegar eru hér eru að flytja starfsemi eða höfuðstöðvar úr landi.

Nú hafa borist fréttir af því að Promens, það metnaðarfulla fyrirtæki, sé komið úr íslenskri eigu og að höfuðstöðvar þess muni flytja úr landi vegna þess að því hafi verið orðið ókleift að starfa innan gjaldeyrishafta. Í athugun fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær kemur fram að svipað er upp á teningnum hjá fleiri fyrirtækjum. Þannig segja forsvarsmenn CCP, Creditinfo og Marels að í öllum þessum fyrirtækjum hafi komið til athugunar að flytja höfuðstöðvar úr landi og sumir telja meiri líkur en minni á að af því verði. Það er vert að minna á það líka að í fyrra kom fram hjá forsvarsmönnum Össurar að það fyrirtæki teldi styttast í veru höfuðstöðva hér á landi vegna gjaldeyrishaftanna. Það er engin tilviljun heldur að öll hafa þessi fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra verið meðal þeirra sem hvað harðast hafa talað gegn hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Meðal annars sagði stjórnarformaður Össurar í fyrra að tillaga ríkisstjórnarinnar sem þá kom fram um að draga til baka aðildarumsóknina væri síðasti naglinn í líkkistuna í veru fyrirtækisins hér á landi.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari þróun. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar til að bregðast við henni og með hvaða (Forseti hringir.) hætti hyggst hann greiða fyrir því að þekkingarfyrirtæki sjái áfram möguleika á að starfa og vaxa hér á landi?