144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfsskilyrði þekkingarfyrirtækja.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð sérkennileg varnarræða fyrir óbreyttu ástandi af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Þekkingarfyrirtæki eru ekki þekkingarfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu hans. Fyrirtæki sem geta ekki lifað við gjaldeyrishöft geta alveg lifað við gjaldeyrishöft samkvæmt skilgreiningu hans. Skilaboðin eru mjög sérkennileg. Ef hægt er að skilja orð hans tekur hann ekki alvarlega þessi viðvörunarteikn og vandamálið er fyrst og fremst að fyrirtæki hafa verið að biðja um einhverja óeðlilega hluti. Ég hef fyrir því traustar heimildir að ákvörðunin um sölu fyrirtækisins hafi verið tekin í beinu framhaldi af því að það taldi sér ekki fært að starfa innan hafta. Það hlýtur þess vegna að vera grundvallarspurningin. Og nú bið ég hæstv. forsætisráðherra að stilla sig í útúrsnúningunum því að allir vita auðvitað hvað þekkingarfyrirtæki eru, það eru fyrirtæki sem byggja einungis á þekkingu en ekki öðrum þáttum heldur bara þekkingu einni saman (Forseti hringir.) þó að þekking komi víða við hjá ýmsum þjónustufyrirtækjum og framleiðslufyrirtækjum öðrum. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að svara hvaða skilaboð (Forseti hringir.) hann hafi til fyrirtækja í þessari stöðu. Er engra breytinga að vænta á framtíðarsýn hæstv. ráðherra?