144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

sameining háskóla.

[15:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst hvað varðar fýsileikakönnun þá vil ég leggja á það áherslu, og það kom reyndar fram á málþinginu sem haldið var í Borgarnesi, að ekki er bara verið að líta til núverandi námsframboðs eða skipulags þessara þriggja skóla heldur er líka horft til þess hvaða sóknarfæri þessar þrjár stofnanir gætu haft sameiginlega á sviði menntunar í landbúnaði, ferðaþjónustu og jafnvel matvælaþróunar í framhaldinu. Það eru þau þrjú svið sem hægt er að benda á sem verulegan vaxtarbrodd í íslensku efnahagslífi og þá alveg sérstaklega á landsbyggðinni. Þessir skólar búa yfir verulegri þekkingu á þessum sviðum, sérstaklega hvað varðar landbúnaðinn og ferðaþjónustuna. Háskólinn á Bifröst hefur verið að stíga skref í átt að matvælatengdu námi sem byggir meðal annars á því að undirbúa fólk undir að sinna stjórnarstöðum í matvælaframleiðslufyrirtækjum. Þess vegna er ekki bara verið að horfa á núverandi námsframboð heldur líka það sem gæti orðið mögulegt og mundi skapa frekari sóknarfæri ef þessir skólar ynnu saman. Vissulega er líka horft til þess hvaða fjárhagslegur ávinningur mundi nást. Reyndar hafa farið fram verulega miklar skoðanir á því á vettvangi ráðuneytisins árum saman. Til eru fjölmargar skýrslur um ýmsa möguleika sem þarna eru undir. Að sjálfsögðu verður það sérstaklega skoðað sem hv. þingmaður vakti máls á. Búið er að ákveða að setja vinnuhóp af stað sem fulltrúar sveitarfélaganna, háskólanna, atvinnulífsins og auðvitað ráðuneytisins koma að.

Hvað varðar rekstrarformið vil ég segja að að sjálfsögðu verður það líka til skoðunar. Ég er opinn fyrir öllum hugmyndum hvað það varðar til að tryggja að skólastarfið verði sem best. Síðan er spurning hvort það sé besti kosturinn hvað gæði varðar. Þá vísa ég aftur til upphafssvars míns, að ekki er bara verið að horfa á háskólana eins og þeir eru í dag, heldur jafnframt á þau sóknarfæri sem myndast gætu við sameininguna og það mótar þá svar mitt við þriðju spurningu hv. þingmanns.