144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

sameining háskóla.

[15:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eins og ég skil svar hans er hugmyndin í raun sú að stofna nýjan háskóla, væntanlega þá með stórauknum framlögum hins opinbera ef ætlunin er að taka þar upp nýtt námsframboð. Í ljósi þess að íslenska háskólakerfið hefur því miður verið vanfjármagnað áratugum saman væri því æskilegt að fá fram afstöðu ráðherra: Er þá ætlunin að auka framlög til þessa nýja skóla til þess væntanlega að auka námsframboð? Eða, í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagðist vera hér opinn fyrir öllu, er þá ætlunin að taka upp skólagjöld fyrir það að mennta bændur og aðra hér á Íslandi? Það væri þá breyting á þeirri menntun og kallar á miklu meiri umræðu á vettvangi Alþingis ef sú er ætlunin.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er hann ekki sammála því að aðalmarkmið sameininga á þessu stigi, háskólastiginu — en ég hef verið mjög opin fyrir að skoða ýmsar leiðir í þeim efnum — (Forseti hringir.) hljóti að vera að auka gæði háskólastarfs og þeirrar menntunar sem í boði er og þeirra rannsókna sem hér eru stundaðar?