144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

tvö frumvörp um jafna meðferð.

[15:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Það er rétt, eins og þingmaðurinn fór í gegnum, að strax í haust voru þessi mál á þingmálaskrá hjá félags- og húsnæðismálaráðherra. Það er búið að uppfæra skrána núna og dreifa aftur meðal þingmanna þar sem við höfum lagt fram áætlun um það hvenær við teljum að við getum lagt fram þau frumvörp sem voru ekki lögð fram á haustþinginu. Það skal viðurkennt hér að í augnablikinu eru frumvörp sem tengjast húsnæðismálum í algjörum forgangi í velferðarráðuneytinu undir mínu málasviði. Þar var gert ráð fyrir fjórum frumvörpum sem geta hugsanlega orðið eitthvað fleiri núna þegar við höfum unnið þau áfram, þ.e. það sem snýr að húsnæðismálum. Ég geri ráð fyrir því að fyrir frestinn, sem ég held að sé 26. mars, verði þessi mál líka lögð hér fram.