144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

tvö frumvörp um jafna meðferð.

[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra. Við megum þá búast við þessu máli hér áður en þingi lýkur í sumar.

Mig langar að nota tækifærið í seinni ræðu og spyrja út í stöðu mannréttindastofnunar. Það er mjög mikilvægt að við séum með öfluga mannréttindastofnun sem sé sjálfstæð og óháð framkvæmdarvaldinu og hafi fjármagn til að sinna hlutverki sínu. Ég býst við að í dag sé Jafnréttisstofa þessi stofnun. Ráðherra er eflaust kunnugt um niðurstöðu vinnuhóps sem skilaði af sér 2008 stuttri en laggóðri skýrslu þar sem var meðal annars talað um að styrkja Jafnréttisstofu. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hún muni horfa til niðurstöðu þess hóps eða hvort þetta verði enn einn hópurinn sem skilar einhverri skýrslu sem ekkert verður gert með.