144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

Náttúruminjasafn Íslands.

[15:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin eins langt og þau náðu. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er misskilningur hjá mér en eins og ég heyri svar hans sé ég ekki betur en að núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson ætli að skila auðu á þessu kjörtímabili að því er varðar einhvers konar framtíðarsýn eða uppbyggingu fyrir náttúruminjasafn á Íslandi. Það liggur þá fyrir en á sama tíma sjáum við á þessu kjörtímabili ferðamenn fara upp fyrir milljónina á ársgrundvelli og ekki síður horfumst við í augu við það að við þurfum að taka verulega á að því er varðar náttúrumennt á öllum skólastigum á Íslandi ef við ætlum að standa undir nafni hvað það varðar. Þar mundi náttúruminjasafn auðvitað skipa lykilsess.

Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki rétt skilið hjá mér að hann ætli að skila auðu að því er varðar framtíðarsýn fyrir náttúruminjasafn.