144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eitt dýrmætasta einkenni íslensks samfélags er heilbrigðis- og menntakerfið þar sem gert er ráð fyrir að fólk geti notið án aðgreiningar eða án tillits til efnahags. Það er gömul saga og ný að hægri flokkar á öllum tímum, á öllum stöðum, hafa litið á þessa þjónustu sem markaðsvöru sem einkaaðilar eigi að geta hagnast á og eigi að geta gert sér að féþúfu. Kannski er hér um að ræða skýrasta greinarmuninn á hægri og vinstri í hefðbundinni samfélagsumræðu og pólitík og kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hægri stjórnin, eins og sú sem nú er við völd á Íslandi, leggi áherslu á að færa samfélagið meira í átt til þess að hornsteinar velferðarkerfisins verði varningur á markaði. Það kom því ekki sérstaklega á óvart að sjá að í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélagsins vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það kallast reyndar fjölbreytt rekstrarform í þessari yfirlýsingu en það er sama orð og iðulega er notað til að kynna einkavæðinguna til leiks undir rós. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Geirs Haardes 2007 stóð til dæmis, með leyfi forseta:

„Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum …“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar 2003 stóð:

„Nauðsynlegt er að verja fjármunum sem best og nýta kosti breyttra rekstrarforma …“

Það nákvæmlega sama stóð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 1995 og 1999.

Yfirlýsing lækna og stjórnvalda í tilefni þessarar umræðu — hvað ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að gera við þá yfirlýsingu? Ætlar hann að koma einkafyrirtækjum af stað í heilbrigðisþjónustunni? Hvar þá? Hann veit væntanlega að einkavæddasta heilbrigðisþjónusta í heimi, í Bandaríkjunum, er líka langdýrasta heilbrigðisþjónusta í heimi. Skiptir það kannski ekki öllu máli? Er aðalatriðið að auka svigrúm fjármagns í samfélaginu? Nú liggur að vísu fyrir að 4/5 hlutar þjóðarinnar vilja félagslega rekna heilbrigðisþjónustu en þegar stefnumál peningaaflanna eru annars vegar skiptir það kannski ekki máli. Það þarf ekki að taka fram að þessi sjónarmið voru ekki á blaði í síðustu ríkisstjórn. Við í VG viljum standa vörð um öruggan aðgang allra óháð efnahag að góðri heilbrigðisþjónustu þar sem Landspítali – háskólasjúkrahús er miðlæg forustustofnun sem veitt getur líf út í allt heilbrigðiskerfið. Það er algjörlega nauðsynlegt að efla heilbrigðiskerfið til muna á næstu árum en lausnin felst ekki í því að einkavæða kerfið og láta þjónustuna stýrast af hagnaðarvon eigenda.

Sýnt hefur verið fram á að einkavædd eða einkarekin heilbrigðisþjónusta er að öllu jöfnu dýrari en opinber heilbrigðisþjónusta. Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni hversu uppteknir sjálfstæðismenn eru af því að huga að rekstrarformi og peningum í heilbrigðiskerfinu í stað þess að tala um innihald heilbrigðisþjónustunnar, hvernig við getum gert hana betri og aðgengilegri fyrir þá sem eiga að nota hana. Þegar rætt er um sjúkrahótel er ekki byrjað á því að ræða þann stórkostlega vanda sem við blasir á legudeildum sjúkrahúsanna, þar sem fólk er hundruðum saman sem ætti að vera á sjúkrahóteli en ekki á legudeildum, heldur er byrjað á því að ræða um rekstrarformið og vildarvinir flokksins gefa sig fram og óska eftir því að verkið verði boðið upp svo þeir geti boðið í sjúklingana og grætt á þeim. Það er vandi heilbrigðisráðherra númer 1. Hann er fangi þeirrar stefnu sem hann býður sig fram fyrir, hann er velviljaður maður en stefnan er honum fjötur um fót. Hún snýst nefnilega ekki um mannúð nema á yfirborðinu, heldur þegar grannt er skoðað snýst stefnan um gróða.

Hinn meginvandi núverandi ráðherra er sú stefna sem sigraði í síðustu kosningum, stefna Framsóknarflokksins, um að svipta heilbrigðiskerfið þeirri framtíðarsýn sem fólst í því að byggja nýjan Landspítala. Aðaltalsmaður Framsóknarflokksins notaði hvert tækifæri til að tala illa um nýjan Landspítala en í staðinn ætti að nota peningana til að byggja upp heilbrigðiskerfið annars staðar, ekki síst úti á landi. Þessi stefna Vigdísar Hauksdóttur, aðaltalsmanns Framsóknarflokksins í flestum málum, sigraði í síðustu kosningum eins og hún hefur margoft bent á og þess vegna tafðist það um mörg missiri að komast af stað með nýjan Landspítala.

Heilbrigðisstéttirnar í landinu voru þannig sviptar framtíðarsýn og mikilvægasta ástæða illvígasta læknaverkfalls í Norður-Evrópu var sú að stjórnvöld hafa enga framtíðarsýn aðra en þá að bjóða upp á það að einkaaðilar geti grætt á heilbrigðisþjónustunni. Flokkur ráðherrans ætlar að lækka skatta. Hann ætlar líka að fyrirtækjavæða heilbrigðiskerfið. Til að fyrirtæki geti starfað þurfa þau hagnað, eða er það ekki kenningin? Það verður þess vegna ráðist að heilbrigðiskerfinu úr tveimur áttum, annars vegar með því að skerða fjárhagslega getu hennar til að starfa eins og hún er og hins vegar á heilbrigðiskerfið að borga fyrirtækjunum gróða. Það á, ef þessir kenningar ganga eftir, að afhenda fyrirtækjunum peninga út úr velferðarkerfinu.

Er það verjandi, virðulegur forseti? Er rétt að velferðin, heilbrigðiskerfið og menntakerfið, sé leið til að græða, sé leið til að hagnast fyrir einstaklinga í samfélaginu? Er verjandi og viljum við, íslenskt samfélag, gera sjúkdóma og veikindi að féþúfu?