144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það góða við frjálst framtak þar sem gróðavon er til staðar, fyrirtæki eins og við þekkjum þau, er að slík fyrirtæki eru svo ofboðslega dugleg að skapa og halda í kúnna. Það er tilgangurinn. Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, skilgreinir tilgang fyrirtækja nákvæmlega þannig, eini tilgangur þeirra er að búa til og halda í kúnna.

Þegar við ætlum að nota slíkt rekstrarform þá þurfum við að spyrja okkur: Ætlum við að nota þetta rekstrarform þar sem við viljum hafa minna af kúnnum? Við viljum hafa minna af kúnnum þegar „kúnnarnir“ eru fangar. Þess vegna viljum við ekki einkavæða fangelsisrefsingu. Við viljum ekki hafa hagsmunaaðila í samfélaginu sem hafa hag af því að fjölga föngum. Þannig er það í Bandaríkjunum. Þar hefur sprottið upp gríðarlega stór og sterkur iðnaður sem hefur áhrif á löggjafann til þess að ná fram fleiri „kúnnum“. Þetta þekkjum við. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmörgum fréttaskýringarþáttum í Bandaríkjunum.

Þegar við horfum á rekstrarform í heilbrigðiskerfinu vil ég aftur vitna í Peter Drucker sem segir: Nánast hver einasti spítali segir: Okkar stefna er að auka heilbrigði, við erum með heilbrigðisstefnu. Nei, segir Drucker, þið eru að hugsa um sjúka, sjúklinga. Við viljum ekki hafa fleiri sjúklinga. Þannig að við þurfum að minnsta kosti að vera mjög meðvituð um það að ef rekstrarformið sem við ætlum að hafa byggist á gróða, er fyrirtæki sem hefur gróðavon, erum við búin að koma á fót og koma upp hættunni á því eða alla vega höfum við þá hagsmuni af því að sjúklingarnir séu fleiri. Við skulum vera vakandi yfir því. Það þarf ekki að þýða að það gerist endilega, en við skulum vera vakandi yfir því.

Þá er spurningin um annað rekstrarform. Ríkisrekstur er ekki skilvirkasta (Forseti hringir.) leiðin, en það eru til sjálfseignarstofnanir. Eins og hv. heilbrigðisráðherra nefndi hafa þær virkað mjög vel þegar kemur að heilbrigði.