144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[16:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í lokin að gömlu ræðurnar hefðu ekkert breyst og það má til sanns vegar færa því að við heyrum nákvæmlega sömu rökin frá sjálfstæðismönnum og við höfum heyrt um áratugi og þeir hafa ekki séð ástæðu til að breyta þeim.

Það sem málið snýst um hér og við þurfum að ræða er hvert stefnir. Ég hef þá skoðun og hef haft lengi að tvö kerfi á Íslandi eigi að vera undir ríkisábyrgð og í ríkisrekstri að mestu leyti, á ábyrgð skattgreiðenda, það er heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Þau eiga ekki að sæta kollsteypum eftir pólitískri hentistefnu. Og ég ætla að vona það að þær yfirlýsingar haldi sem hæstv. ráðherra gaf hér, sem eru auðvitað gríðarlega mikilvægar, um að við ætlum að halda áfram að reka kerfi sem allir eiga aðgengi að óháð efnahag, jafnan aðgang og njóti jafnréttis. Ef það er haft að leiðarljósi þá óttast ég í sjálfu sér ekki framhaldið. En það eru blikur á lofti og það er alltaf verið að gefa eitthvað í skyn, og það þurfum við að fá að ræða.

Við viljum að hér sé gott aðgengi, framboð sé nægt, gæði tryggð, það sé eftirlit og það sé á ábyrgð ríkisins, það sé á ábyrgð opinberra aðila að þetta sé í lagi. Síðan getum við rætt um önnur rekstrarform og menn nefna hér fyrst og fremst sjálfseignarstofnanir. Er einhver eðlismunur á þeim og stofnun sem, eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson rakti áðan, hefur það að markmiði að auka og efla sinn eigin hagnað? Slík stofnun hefur allt önnur markmið en heilbrigðiskerfið, sem þarf að draga úr þjónustu eða vill gera það, þ.e. með því að bæta heilsu og lýðheilsu, með fyrirbyggjandi störfum og öðru slíku frekar en að mynda hagnað í rekstrarforminu per se. Þess vegna verða að koma skýrari svör frá hæstv. ráðherra. Er hann að tala um sjálfseignarstofnanir eða stofnanir sem reknar eru af viðkomandi heilbrigðisstéttum eða er hann að tala um atvinnurekstur einkaaðila sem hafa hagnaðarvon sem meginmarkmið? Það óttast ég vegna þess að það eru fordæmi fyrir því og við sjáum það víða, eins og í Bandaríkjunum, hvernig það kerfi hefur leitt til tvöfalds kerfis þar sem menn fá leyfi til þess að taka sér viðbótartekjur o.s.frv.

Punktur 7 vekur ugg(Forseti hringir.) í samkomulaginu sem hér er verið að ræða um, sem að öðru leyti var mjög gott. Hvert vill hæstv. ráðherra stefna? Við auglýsum eftir (Forseti hringir.) skýrari svörum.