144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[16:03]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg og þörf umræða. Við ræðum hér um rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni fyrst og fremst en í raun og veru í opinberum rekstri. Við erum að ræða um heilbrigðisþjónustuna eins og við köllum hana, en ég vil nú aðeins minnast á menntakerfið sem af einhverjum ástæðum við köllum ekki menntaþjónustu.

Eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna og hæstv. ráðherra hér á undan höfum við á Íslandi búið við fjölbreytt rekstrarform í opinberri þjónustu. Ég þekki það vel úr fyrra lífi mínu á vettvangi sveitarstjórnar í menntakerfi, í heilbrigðiskerfi, í samgöngukerfinu o.s.frv. Það verður að viðurkennast að við höfum bæði mjög góða reynslu af opinberum rekstri og síðri reynslu. Það sama á við um einkarekna þjónustu og þjónustu sem rekin er af sjálfseignarstofnunum. Í sumum tilvikum hefur þar tekist sérstaklega vel til, í öðrum tilvikum ekki. Þegar illa hefur tekist til þá á það sameiginlegt, hvort sem það er opinber rekstur, einkarekstur eða hvað, að eitthvað hefur skort á stefnumörkunina, eftirlitið og framkvæmdina. Það er aðalatriðið til að tryggja að þjónustan sé góð.

Ég vil leggja áherslu á það í þessari umræðu að það hlýtur að vera þjónustan sem skiptir mestu máli, að þjónustan sé góð, sé sem best, auðvitað að hún nýti fjármuni vel, en fyrst og fremst að þjónustan sé góð, að jafnræði sé allra sem eiga að njóta þjónustunnar til jafn góðrar þjónustu og að tryggt sé að þjónustan sé veitt. Það er kannski einn gallinn við einkarekstur í opinberri þjónustu að einkaaðili sem (Forseti hringir.) mögulega getur til dæmis farið, eins og maður segir, á hausinn getur kannski ekki tryggt þjónustuna eða ferli þjónustunnar eins og ríkisrekstur en hins vegar getur hann það þegar vel er um haldið.