144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og vekja athygli á því að þetta er ein af þeim fjölmörgu umræðum sem eiga sér stað á hinu háa Alþingi sem fá ekki nægan tíma. Hér höfum við tvær mínútur til þess að flytja mjög stuttar ræður um mjög viðamikið umræðuefni.

Margir hafa hér vakið athygli á því að málið sé í reynd mjög einfalt, að þetta snúist um að fá bestu þjónustuna fyrir lægsta verðið. Ég er þessu ósammála. Ég vil meina að það séu flóknari spurningar fyrir hendi eins og hv. 10. þm. Reykv. s. kom inn á hérna áðan, þetta snýst líka um hvata, þetta snýst um hvaða hvatar liggja að baki hegðunar kerfisins.

Þetta verður skýrt þegar við tölum um fangelsismál. Þau eru að mörgu leyti eða flestu leyti sem betur fer frábrugðin heilbrigðismálum, en þau eru gott dæmi til að sýna fram á þann punkt að þegar maður býr til kerfi sem hefur þann hvata að búa til eitthvað sem okkur finnst vera slæmt, þá verðum við að átta okkur á því nákvæmlega hvað við erum að gera.

Að þeirri ágætu hv. stofnun SÁÁ ólastaðri vil ég taka hana sem dæmi. SÁÁ er sjálfstæð stofnun en hún hefur oft verið gagnrýnd fyrir það að reka spilakassa. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir það að auka á vandamálið sem stofnuninni er ætlað að leysa. Nú ætla ég ekki að taka undir þá gagnrýni hér og nú vegna þess að ég er ekki viss um að það sé endilega sá hvati sem ráði förinni hjá SÁÁ, en hættan er til staðar, vandinn er til staðar og við þurfum að gera ráð fyrir honum og þurfum að hafa þennan hvata í huga þegar við tökum umræðuna um rekstrarformið. Rekstrarformið má ekki vera þess eðlis að það hvetji beinlínis til þess að vandinn verið stærri en ella.

Það fer auðvitað eftir viðfangsefnum hversu stór þáttur þetta er, en þetta snýst um meira en einfaldlega kostnað og gæði þjónustunnar. Það er það sem ég vildi koma að.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefndar Alþingis verði að jafnaði opnir.