144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

406. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í haust hitti ég hóp nemenda. Þetta var hópur nemenda Listaháskóla Íslands og áttu þeir það sameiginlegt að hafa miklar áhyggjur af húsnæði skólans. Þá og þann hv. þingmann sem hér stendur langaði að vita hvaða áform hæstv. menntamálaráðherra hefði um húsnæði Listaháskólans. Einnig væri fróðlegt að fá svör um niðurstöðu samstarfsnefndar sem skipuð var fyrir nokkrum árum síðan um framtíðaráform húsnæðismála Listaháskólans, ef einhver niðurstaða hefur fengist. Samstarfsnefndin var skipuð fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og Listaháskólanum.

Eins og hæstv. menntamálaráðherra veit er starfsemi Listaháskólans dreifð um Reykjavíkurborg og fer nú fram í þremur húsum. Þeir sem þekkja vel til starfsemi skólans segja að ef skólinn væri með starfsemi í einu húsnæði þá væru samlegðaráhrif milli deilda mun meiri en þau eru, það gæfi af sér meiri fjölbreytni í náminu og mundi skapa skólanum mun sterkari sérstöðu í alþjóðlegu námsumhverfi. Taka verður þó fram að með útsjónarsemi og mikilli vinnu undanfarin ár hafa samlegðaráhrif og samstarf milli deilda farið vaxandi innan skólans.

Annað og alvarlegra mál er þó að húsnæði skólans við Sölvhólsgötu er illa farið. Nemendur skólans hafa komið fram í fjölmiðlum og lýst áhyggjum sínum af ástandinu. Við Sölvhólsgötu eru leiklistar-, dans- og tónlistardeildir skólans og heyrst hefur að það húsnæði hafi eingöngu átt að vera til bráðabirgða. Nauðsynlegar endurbætur sem áttu að fara fram á húsnæðinu fyrir nokkrum árum síðan hafa ekki farið fram svo ég viti til og samkvæmt þeim heimildum sem ég hef. Samkvæmt því sem nemendur skólans hafa sagt og fram hefur komið í fjölmiðlum virðist sem húsnæðið sé ótækt fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Sem dæmi er loftræstingin ónýt og hljóðeinangrun lítil sem engin á milli herbergja.

Umræðan um húsnæðismál eða húsnæðisvanda Listaháskólans er ekki ný. Auðvelt að finna fjölda frétta þar sem fjallað er um bágborið ástand á húsnæði skólans, óviðunandi kennsluaðstæður og vinnuaðstöðu nemenda og ákall frá nemendum og starfsfólki skólans um að ráðist verði í endurbætur á þeirri stöðu sem nú hefur varað til fjölda ára.

Mig langaði því að biðja hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson að svara þeim spurningum sem ég spurði hann í upphafi ræðunnar, þ.e. hvaða framtíðaráform hæstv. menntamálaráðherra hefur um húsnæði Listaháskólans og hvaða niðurstöðu samstarfsnefnd skilaði ef hún hefur þá skilað niðurstöðum um þau málefni.

(Forseti (SJS): Forseta varð á að fara ekki alveg rétt með föðurnafn hv. fyrirspyrjanda, Elsu Láru Arnardóttur, beðist er velvirðingar á því og leiðréttist það hér með.)