144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

406. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og segja að unnið hefur verið að því að koma starfsemi Listaháskóla Íslands undir eitt þak allt frá því að skólinn var stofnaður árið 1999. Hér er því um gamalt og nýtt vandamál að ræða. Liður í því var samningur sem skólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið gerðu með sér, dagsettur 7. maí árið 2007, um sérstakt húsnæðisframlag og var samningurinn staðfestur af fjármálaráðherra. Á grundvelli hans gerðu Listaháskólinn og byggingafélagið Samson Properties ehf. með sér samning um byggingu húsnæðis fyrir skólann á svokölluðum Frakkastígsreit í miðborg Reykjavíkur. Samningurinn var undirritaður 4. desember 2007 og var áætlað að byggingin yrði afhent skólanum í maí 2011 og kennsla gæti hafist í nýju húsnæði haustið 2011. Vegna efnahagsástandsins hafa þessi áform ekki gengið eftir og ríkir því óvissa um framtíðarhúsnæði fyrir skólann.

Í maí árið 2013 var skipaður starfshópur í tengslum við framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands. Starfshópnum var falið að gera ítarlega kostnaðaráætlun vegna byggingar á húsnæði fyrir Listaháskólann. Um var að ræða tvær staðsetningar en þrjá möguleika, annars vegar að gera breytingar á núverandi húsnæði skólans að Laugarnesi 91 og byggja við húsnæðið, hins vegar að gera breytingar á núverandi húsnæði skólans að Sölvhólsgötu 13 og byggja við húsnæðið eða byggja nýtt húsnæði fyrir skólann á Sölvhólsgötureitnum.

Stefnumótun Listaháskólans fyrir árið 2007–2011 var skoðuð og þar segir meðal annars að áhersla sé lögð á að skólinn starfi undir einu þaki og að viðunandi húsnæðislausn fáist í samræmi við sérstöðu hans.

Vík ég þá að öðrum lið fyrirspurnar hv. þingmanns sem snýr að niðurstöðu samráðsnefndar um húsnæðismál skólans sem sett var á fót, eins og ég nefndi í svari mínu við fyrri spurningunni.

Virðulegur forseti. Starfshópurinn hætti störfum í byrjun síðasta árs án endanlegrar niðurstöðu. Rektor Listaháskóla Íslands hefur lýst áhuga sínum á að skólinn verði allur í Laugarnesinu. Listaháskólinn hefur til umráða 4.500 fermetra í alls 10.000 fermetra húsnæði að Laugarnesvegi 91. Sé stuðst við þarfagreiningu sem unnin var vegna fyrirhugaðrar byggingar á Frakkastígsreitnum, en þar var rýmisþörfin metin um 15.000 fermetrar, þyrfti að byggja við um 5.000 fermetra. Alls er um heildarfjárfestingu að ræða upp á 4 milljarða kr. og er sú upphæð mun lægri en sá kostnaður að byggja við núverandi húsnæði á Sölvhólsgötureitnum eða að byggt verði nýtt húsnæði frá grunni.

Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun og það er rétt að taka fram að þar sem byggingaráform skólans hafa ekki gengið eftir á skólinn ekki kröfu á hendur ráðuneytinu vegna samningsins.