144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

406. mál
[16:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá þessa umræðu af hálfu stjórnarþingmanna við fjárlagaumræðuna. Ég held að Vinstri græn hafi verið þau einu sem nefndu Listaháskólann sérstaklega í nefndaráliti með fjárlögunum þar sem vakin var athygli á því að framtíðarsýn skólans hefði ekki verið kynnt þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórn geri skapandi greinar og kennslu að sérstöku umtalsefni í stefnuyfirlýsingu sinni. Og það er auðvitað vert að minnast þess þegar ég ræddi hér við hæstv. ráðherra um húsnæðisframlagið að hann gat ekki fært, fannst mér, almennileg rök fyrir að skólinn fengi það ekki, þrátt fyrir að vita að hann stæðist hvorki kröfur um öryggi né aðgengi, þ.e. það húsnæði sem hann er í.

Einnig er vert að minna á að það eru ekki bara húsnæðismálin, það er líka rannsóknaþátturinn sem hefur alltaf verið settur frekar skör lægra hjá Listaháskólanum en öðrum skólum. Nú er búið að útbúa kennsluskrá fyrir kvikmyndanám. Og af því að í heimabæ okkar hæstv. ráðherra er núna mikið (Forseti hringir.) kvikmyndatökulið í gangi er ekki úr vegi að við leggjum þeirri grein töluvert (Forseti hringir.) meira lið en gert hefur verið.