144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

406. mál
[16:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þingmanni og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna.

Það er auðvitað svo og ég held að við getum öll sem höfum tekið þátt í þessari umræðu verið sammála um að það væri óskandi að við hefðum meiri fjármuni úr að spila til að styrkja og styðja við þá merku skólastarfsemi sem fer fram undir þaki Listaháskóla Íslands. En rétt er að ítreka það sem kom fram í upphafi svars míns að þetta hefur verið vandamál allt frá árinu 1999. Búið er að vinna töluvert mikið af greiningum og skoðunum á því hvaða möguleikar þarna eru til staðar.

Ég vék að því í svari mínu að rektor Listaháskóla Íslands hefur lýst áhuga sínum á því að skólinn verði allur í Laugarnesinu. Búið er að skoða hvaða fermetrafjöldi þar er undir. Við vitum úr þeirri þarfagreiningu sem unnin hefur verið, sem reyndar miðaði við fyrirhugaða byggingu á Frakkastígsreitnum, að þar var metið að rýmisþörfin væri 15.000 fermetrar. Það er 10.000 fermetra húsnæði til staðar að Laugarnesvegi 91 þar sem skólinn hefur til umráða 4.500 fermetra. Kostnaður til að mæta þessu, matið á því er að þarna þurfi kostnað til sem er upp undir 4 milljarðar kr.

Hvað varðar nefndina þá hefur hún hætt störfum. Það er alveg hárrétt, hana vantaði fjármuni. Þetta er ágætislexía í því að þegar við setjum af stað nefndir til verka að tryggja það að nefndirnar hafi fjármuni til að sinna starfi sínu. Það er ekki gott að setja nefndir af stað án þess að hafa gengið frá því tryggilega að fjármagn sé til staðar. Því miður fékkst ekki fjármagn til frekari starfa þar.