144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Það er mjög gott að vita til þess að menn hafa látið til skarar skríða. Þessi skýrsla er á næsta leiti. Svo að það sé alveg rétt þá var gert ráð fyrir henni 1. janúar 2015. Það skakkar ekki nema mánuði þannig að það þykja frekar snöfurmannleg vinnubrögð, sérstaklega þar sem nefndin var skipuð 12. maí 2014.

Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um þetta að það skiptir mjög miklu máli að hraða lagabreytingum og öðru sem viðkemur þessu máli. Það skiptir líka mjög miklu að taka á málum þeirra sem þegar hafa orðið fyrir tjóni af þessum völdum, bæði fjárhagslegu og heilsufarslegu tjóni.

Ég bind því miklar vonir við skýrsluna. Ég veit að það eru margir sem eru í þeim erfiðu sporum að hafa hreinlega misst heimili sitt vegna þessara mála og bíða óþreyjufullir eftir því að sjá hvernig stjórnvöld hyggjast bregðast við. Mér þykir alla vega hraði málsins og eindrægni þess gefa til kynna að við munum sjá niðurstöðu sem verður skynsamleg og sanngjörn. Ég þakka því enn og aftur ráðherranum kærlega fyrir. Þetta eru góðar fréttir á mánudegi.