144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Búsetujafnrétti og byggðamál eru mál sem kannski fá ekki nægilega mikla umfjöllun hér í þinginu og annars staðar en engu að síður eru þau gríðarlega mikilvæg.

Eitt af þeim málum sem þarna heyrir undir er húshitunarkostnaður og rafmagnskostnaður í dreifbýli. Það er réttlætismál að allir búi þar við sama borð og sama kostnað óháð búsetu. Þegar kemur að dreifingu raforku hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp sem miðar að því að jafna dreifikostnað á raforku í hinum dreifðu byggðum landsins. Það er vel og vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Frumvarpið er nú til meðferðar í þinginu og bíður 2. umr.

Annað mál sem er gríðarlega mikilvægt snýr að jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Það er nefnilega svo að vítt og breitt um landið í hinum dreifðu byggðum búa ekki allir við það að geta kynt hús sín með heitu vatni á jafn hagkvæman hátt og margir þekkja á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þetta hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir þá einstaklinga, fyrir þau fyrirtæki og fjölskyldur sem búa á þeim svæðum.

Í landsfundarsamþykktum beggja stjórnarflokkanna, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er skýrt kveðið á um að það skuli jafna húshitun á köldum svæðum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sagði í ályktun um atvinnumál, með leyfi virðulegs forseta: „Gengið verði til tafarlausra aðgerða til þess að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er mestur.“

Flokksþing Framsóknarflokksins sagði, með leyfi virðulegs forseta: „Lagt verði á sérstakt jöfnunargjald sem verði notað til að greiða niður húsnæðiskostnað og flutningskostnað á raforku með það að leiðarljósi að jafna kostnað við húshitun á landsvísu.“

Virðulegi forseti. Þetta rataði síðan inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir, með leyfi virðulegs forseta: „Unnið verður að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.“

Eins og ég sagði áðan þá hefur hæstv. ráðherra lagt fram frumvarp um jöfnun á dreifikostnaði raforku en við höfum ekki enn séð frumvarp koma hingað inn í þingið sem miðar að jöfnun á húshitunarkostnaði sem er líka mjög mikið hagsmunamál og mjög mikilvægt eins og ég vék að í ræðu minni. Um leið og ég þakka fyrir það frumvarp sem komið er fram varðandi dreifinguna langar mig að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að því hvenær megi vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra líkt og kveður á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samþykktri stefnu beggja stjórnarflokkanna.