144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:02]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þessa fyrirspurn og tek undir hvert orð í ræðu hans, þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Fyrirspyrjandinn rakti ágætlega stöðuna á því frumvarpi sem bíður nú 2. umr., en í því felst það sanngirnismál að jafna dreifikostnað á raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þetta eru þannig mál að þegar einni stærð er hnikað til þá fara gjarnan aðrar stærðir af stað þannig að það er tiltölulega snúið, en enginn skyldi efast um það að við í báðum stjórnarflokkunum og ég held reyndar á þinginu öllu höfum ríkan vilja til að klára þetta mál bæði hvað varðar dreifinguna og síðan niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.

Á fjárlögum 2015 er núna samtals 1.479,5 millj. kr. ráðstafað til niðurgreiðslu og hitunar íbúðarhúsnæðis. Inni í þeirri tölu er sérstakt viðbótarframlag upp á 57 millj. kr. til að mæta viðbótarkostnaði við rafhitun í þéttbýli vegna virðisaukaskattsbreytinganna sem urðu um áramót og upptöku jöfnunargjalds á raforku.

Það hefur legið fyrir um nokkurra ára skeið að þeir fjármunir sem úthlutað er á fjárlögum á hverju ári til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar ná ekki að dekka að fullu þann kostnaðarmun sem er á húshitun á hitaveitusvæðum og köldum svæðum. Brýnt er að bregðast við því og þess vegna hef ég sett þau mál í forgang innan ráðuneytisins.

Fyrri áfanganum eins og hér hefur komið fram hefur verið ýtt úr vör. Frumvarpið sem hefur verið títt nefnt bíður nú 2. umr. og ég er vongóð um að það verði afgreitt sem lög á næstu dögum. Til samræmis við það frumvarp er á fjárlögum ársins 2015 gert ráð fyrir 848 millj. kr. dreifbýlisframlagi til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku og er þar um að ræða 304 millj. kr. hækkun á dreifbýlisframlagi frá fyrra ári. Þegar jöfnunargjaldið verður komið að fullu til framkvæmda árið 2016 er ráðgert að búið verði að tryggja fjármuni til að ná fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli. Vegna þess að hér hefur ein stærð áhrif á aðrar, eins og ég útskýrði áðan, hefur þessi aðgerð m.a. veruleg áhrif á þörf fyrir niðurgreiðslur vegna rafhitunar húsnæðis þar sem raforkukostnaður í dreifbýli mun lækka verulega vegna þessa aukna dreifbýlisframlags.

Síðari áfanginn í verkefninu snýr hins vegar að því að ná fram fullri jöfnun húshitunarkostnaðar og þá kem ég að spurningu hv. þingmanns: Hvenær má vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra? Svarið er að slíkra ráðstafana er að vænta núna á vorþingi.

Í minnisblaði sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina í nóvember síðastliðnum vakti ég athygli á að brýnt væri að til lengri tíma væru tryggðir fjármunir á fjárlögum til að jafna að fullu kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki hafa kost á hitun með jarðvarma. Orkustofnun hefur reiknað út að til að tryggja fulla jöfnun þurfi að auka niðurgreiðslu samkvæmt lögum um 240 millj. kr., að teknu tilliti til virðisaukaskattsbreytinganna og jöfnunargjaldsins. Ég get því upplýst hér að til að fylgja framansögðu eftir mun ég á næstu vikum leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar til að fá fram afstöðu þingsins til stefnumörkunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu á raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Sú tillaga er m.a. í samræmi við þau markmið sem sett voru fram í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar sem skilað var til þáverandi iðnaðarráðherra í desember 2011. Það má segja að það sé síðara skrefið í því verkefni sem ég hef hér farið yfir. Það er fyrst að tryggja fullan jöfnun á dreifikostnaði í dreifbýli og þéttbýli í gegnum jöfnunargjaldið og síðan í gegnum þingsályktunartillöguna að grípa til ráðstafana til að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra.

Með afgreiðslu þessara tveggja þingmála er því stefnt að framtíðarlausn hvað varðar jöfnun á húshitunarkostnaði og raforkukostnaði, óháð búsetu í landinu. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess út frá byggðasjónarmiðum og atvinnusjónarmiðum og hef fulla trú á því að um þessi mikilvægu mál náist góð sátt og samstaða í þinginu. Ég veit að mikill áhugi er á þessu en líka óþreyja þannig að við munum kappkosta að leggja fram þingsályktunartillöguna svo fljótt sem verða má.