144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeim samhljómi sem hér er um mikilvægi þess að vinda bráðan bug að því að jafna húshitunarkostnað. Ég vil minna á að það var stigið mjög stórt skref í þá átt í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar við bættum á erfiðum tíma, þegar ríkisfjármál voru í mjög erfiðri stöðu, hraustlega í fjárframlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Það var í fyrsta skipti frá 2003 sem því var hreyft. Það væri mjög mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð. Ég vil fræða málshefjanda á því að það eru ekki einungis stjórnarflokkarnir sem hafa stefnumörkun að þessu leyti, við þingmenn Samfylkingarinnar lögðum fram í haust þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum þar sem þetta er einn af þeim ellefu lykilþáttum sem við teljum að þurfi að leggja áherslu á til að styrkja og styðja við byggð í landinu.

Ég vil að síðustu taka undir það sem hér hefur verið nefnt að auðvitað skiptir máli varðandi jöfnun dreifikostnaðarins að þar leggi allir af mörkum, líka stóriðjan, eins og gert var ráð fyrir í hinni (Forseti hringir.) þverpólitísku nefndarvinnu sem fór fram á síðasta kjörtímabili í því (Forseti hringir.) efni.