144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að upplýsa það að Umhverfisstofnun, eins ágæt og hún nú er, er ekki dómstóll. Umhverfisstofnun getur ekki fellt þann dóm að eitthvað sé heimilt eða óheimilt. Það er dómstóla að gera það og um þetta eru skiptar skoðanir.

Hvað verður um heimildir einkaaðila verði náttúrupassinn að lögum? Það verður með nákvæmlega sama hætti og núna. Einkaaðilum verður ekki bannað að innheimta gjald með þessum lögum eða lögum um gistináttagjald eða öðrum þeim aðferðum sem við höfum til þess að innheimta gjald til þess að stuðla að uppbyggingu.

Hins vegar er í þessu frumvarpi hvati til einkaaðila til að koma með okkur í þetta verkefni gegn því að þeir rukki ekki sjálfir gjald. Það tel ég vera farsælli leið. Og af því að hv. þingmaður vitnar í náttúruverndarlög þá hvet ég landsmenn og hv. þingmann til þess að lesa 32. gr. sem heitir Gjaldtaka o.fl., sem heimilar umsjónaraðilum að taka gjald (Forseti hringir.) einmitt til þess að berjast gegn náttúruspjöllum. Það er markmiðið með þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Sambærileg ákvæði er að finna í sérlögum um þjóðgarðana (Forseti hringir.) og í lögum um skipan ferðamála. Ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér þau.