144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni hjartanlega fyrir þessa góðu ræðu. Hann tók algjörlega á því sem er kjarni þessa máls, það er þáttur sem legið hefur allt of fjarri umræðunni, að minnsta kosti fram að því að þetta þingmál var tekið hér til umræðu. Þá hafði það komið að vísu nokkrum sinnum upp.

Hann sagði að sér virtist að með þessu frumvarpi væri í reynd verið að leggja blessun framkvæmdarvaldsins yfir það að eigendur náttúruperlna í einkaeigu, eins og hv. þingmaður orðaði það, gerðu þær sér að féþúfu. Það taldi hann stangast á við almannaréttinn. Ég er honum sammála um það.

Það vakti eftirtekt mína að hæstv. ráðherra kom hér og sagði, eins og hún hefur sagt nokkrum sinnum á síðustu sólarhringum, að það mál væri óútkljáð og að þetta frumvarp skipti engu máli varðandi það. Þess vegna langar mig til þess að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þetta mál var á sínum tíma hér til umræðu vegna atburðanna við Geysi þar sem hv. þingmaður lét nú kveða rækilega að sér. Þá kom hér algjörlega skýrt fram af hálfu að minnsta kosti tveggja talsmanna ríkisstjórnarinnar að þegar þetta frumvarp kæmi yrðu þessi mál í eitt skipti fyrir öll útkljáð.

Nú kemur hæstv. ráðherra og segir að málið sé útkljáð. Ég held hins vegar að það sé óútkljáð. Ég held að þar ætti hún að skoða betur það sem hún hefur sjálf sagt. Ef maður fer á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins og les upplýsingar sem þar eru, þar eru til dæmis spurningar og svör. Þegar spurt er um hvort náttúrupassinn komi í veg fyrir gjaldtöku einkaaðila á einstökum ferðamannastöðum, er svarið eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði.“

Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra leggur blessun sína yfir það, og ekki bara það, hún vekur sérstaka eftirtekt á því. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefur því algjörlega rétt fyrir sér.