144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ágæta ræðu. Árið 1995 kom hv. þingmaður á þing og skrifaði undir eiðstaf að stjórnarskránni. Í henni er 72. gr., og hún hefur verið þar óbreytt, þar sem segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir“. Þetta er ekkert svokallaður eignarréttur. Þetta er eignarréttur, ekki svokallaður. Hann er bara ótvíræður og þetta er stjórnarskráin og stjórnarskráin er æðri öðrum lögum, líka Grágás. Þannig að þetta skal gilda númer eitt, tvö og þrjú, sama hvort hv. þingmaður er sáttur við það eða ekki. Þetta er það sem gildir.

Síðan geta verið deilur um það hvort landeigendur megi innheimta, ég ætla ekki að taka neina afstöðu til þess eins og hv. þingmaður. Ég ætla ekki að dæma í því máli eins og hv. þingmaður. Við höfum dómstóla til að dæma.

Hv. þingmaður vildi gjarnan horfa til gistináttagjaldsins. Nú er það þannig að það gefur ekkert voðalega miklar tekjur. Það gefur allt of litlar tekjur. Það er allt of lágt. En samt er það ekki nema á hluta gistinátta, þ.e. á þann hluta sem er löglegur og gefinn upp, ekki á þann hluta sem er ekki gefinn upp og mun ekki vera það. Gallinn við gistináttagjald er að það getur haft áhrif á það hvort menn komi til Íslands, ef gistiþjónusta verður of dýr. Eins er það með komugjaldið. Það leggst á innanlandsflug og þar með Íslendinga í stórum stíl og það er mjög óréttlátt fyrir þá sem ætla sér að skoða náttúruna.

Ég vil spyrja hv. þingmann, því að það kom ekki fram í ræðu hans: Er hann með einhverjar aðrar hugmyndir?