144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. 72. gr. stjórnarskrárinnar fjallar ekki um einkaeignarrétt, hún fjallar bara um eignarrétt almennt og hann er friðhelgur. Það hefur hv. þingmaður skrifað undir með eiðstaf og ég ætla að vona að það gildi.

Hann sagðist ekki koma með önnur gjöld en gistináttagjaldið og komugjaldið o.s.frv., en lagði jafnframt til að við mundum nota skattfé almennt, þ.e. skattfé á Íslendinga, til að greiða fyrir aðstöðu sem er (Gripið fram í.) aðallega vegna útlendinga. Ferðaþjónustan gefur heilmiklar tekjur en það vantar samt sem áður mikla peninga í ríkissjóð. Það er mikill halli á ríkissjóði og við borgum gífurlega vexti vegna skulda ríkissjóðs þannig að við höfum ekki efni á því, að mínu mati, að nota aðrar tekjur ríkissjóðs til að greiða niður þessa ferðaþjónustu. Ég sé því ekki aðra leið nema hv. þingmaður bendi mér á hana.