144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þm. Pétur H. Blöndal að leggja mér ekki orð í munn. Ég var ekki með neinar tillögur þar að lútandi. Ég nefndi og benti á ýmsa valkosti. Ég sagði hvað mér þætti heppilegustu leið að fara, gistináttagjaldið. Ég benti líka á aðra kosti en lagðist algerlega gegn þeirri grunnhugsun sem hér er.

Varðandi einkaeignarréttinn fyrir menn sem skilja ekkert annað en tal undir slíkum formerkjum skulum við bara hafa það svoleiðis að við sem þjóð, sem samfélag, eigum náttúruperlurnar. Þótt einstaklingar kunni að eiga landið sem þær er að finna á er rétturinn til að njóta þeirra, horfa á Herðubreið, njóta Geysis og Strokks og Gullfoss og Dettifoss, sá eignarréttur, ef hv. þingmaður getur ekki skilið önnur hugtök en þessi, hann er okkar og hann verður ekki frá okkur tekinn.