144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann talaði um að eignarréttur og almannaréttur rækjust á. Nú er það þannig að mér er ekki kunnugt um að það séu nein dómsmál í gangi beint um það, að til dæmis eigendur Kersins megi innheimta afnotarétt af Kerinu, en ég býst við að slík dómsmál komi upp á næstunni og þá að sjálfsögðu, af því að við sitjum nú á löggjafarsamkundunni, treystum við dómstólum sem er þriðja valdið í þjóðfélaginu til að skera úr um hvort vegur þyngra. Þetta er sem sagt um eignarréttinn og almannaréttinn, sem er reyndar ekki svo mér sé kunnugt um í stjórnarskránni, almannarétturinn er ekki í stjórnarskránni. Hann ætti kannski heima þar að mati margra.

Hv. þingmaður talaði um nýtt þrep og að núverandi stjórnarflokkar hafi hopað frá því þrepi. Þar var um að ræða að setja inn nýtt þrep, 14% á ferðaþjónustu, gistingu. Ég var alfarið á móti því vegna þess að ég sá fyrir mér enn meira flækjustig í virðisaukaskattinum sem ekki er á bætandi, ég held að sú stefna sé almennt núna að reyna að einfalda skattkerfið til að koma í veg fyrir misnotkun.

En varðandi það að landeigendur fari að innheimta vil ég minna á að það kostar helling að innheimta svona gjald. Það kostar fólk að störfum, á vöktum allan sólarhringinn meira og minna eða alla vega frá því snemma á morgnana þar til seint á kvöldin og það kostar heilmikið. Það má vel vera að menn noti frekar þá möguleika sem frumvarpið býður upp á.