144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get vísað til þess að fyrir liggur heildstæð tillaga um nýja stjórnarskrá og hefði verið gaman að heyra frá hv. viðkomandi þingmanni af hverju hann studdi hana ekki. Þar var meðal annars tekið á þessu en hún var ekki afgreidd, því miður.

Það liggur svona uppgjafar- og undirlægjuháttur í því að þora ekki að hafa skoðun, og segja þá: Hvort viltu? Hv. þingmaður er að segja að hann vilji eignarréttinn fram yfir almannaréttinn. Það er það sem málið snýst um. (Gripið fram í.) Ég er að segja það öfugt, ég vil vitna í Grágás, eldri lög og hefðarrétt, og segja: Það er það sterkur þáttur að við megum ekki afsala okkur honum. Um það snýst deilan. Við þurfum þá kannski að búa um það með þeim hætti að við séum ekki að ganga á eignarréttinn, þ.e. öfugt, að við ætlum ekki að ganga á almannaréttinn, gefum þá þau skilaboð í staðinn fyrir að vera að fela sig hér og segja: Það gæti farið fyrir dómstóla o.s.frv. Þannig hafa menn líka talað um kvótann og annað, það gæti farið fyrir dómstóla en það hefur aldrei farið þangað. Það er kannski kominn tími til. Ef við ætlum að standa frammi fyrir því að það sé allt komið í einkaeigu, við yrðum leiguliðar í okkar eigin landi, þá er það ekki sýn sem ég deili með hv. þingmanni.