144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er að teiknast upp mjög áhugaverð umræða. Við erum sammála um það, ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að nú gæti verið að hefjast eins konar kvótavæðing á náttúruperlum Íslands. Og það var athyglisvert þegar við heyrðum hv. þm. Pétur H. Blöndal stíga hér í ræðustól og draga upp skýra mynd eða skýrar línur, landamæri á milli eignarréttar annars vegar og almannaréttar hins vegar. Hann gefur ekki mikið fyrir almannaréttinn, hann sé bara í Grágás og rúmlega þúsund ára sögu Íslands, en það sé kveðið á um eignarréttinn í stjórnarskrá landsins.

Nú segir svo í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að sjávarauðlindin sé okkar allra. Síðan voru stigin skref, nákvæmlega þau sömu og verið er að stíga hérna, og einstaklingum veitt heimild til að fénýta sér sjávarauðlindina. Síðan gerist það smám saman að það skapast að margra mati eignarhefðarréttur. Fyrrum steig Sigurður Líndal prófessor fram á sjónarsviðið þegar við ætluðum að hækka auðlindagjaldið á sínum tíma og sagði að það stríddi gegn einkaeignarrétti. Þarna er hugsanlega að hefjast þróun sem er rétt að líkja við kvótavæðingu sjávaraflans eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði skil í mjög góðri ræðu sinni. Er það mat hans, spyr ég í þessu andsvari, að hér séu að teiknast upp mjög skýrar línur í pólitíkinni, annars vegar milli þeirra sem vilja standa vörð um almannarétt og hins vegar hinna sem hamra á einkaeignarrétti og þá réttinum til að fénýta náttúruperlur Íslands?