144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það kann að vera að hér séu að koma fram skýrar línur í pólitík og ég held að það skipti miklu máli að menn tjái sig um afstöðu til almannaréttar og einkaréttarins. Ég hef að vísu þá tilfinningu að ef á reyni þá verði ekki meiri hluti fyrir því að einkarétturinn verði tekinn fram fyrir almannaréttinn, ég trúi því ekki, miðað við þá 63 þingmenn hér sem ég þekki, að t.d. Framsóknarflokkurinn taki þetta skref að fullu og ekki allir sjálfstæðismenn heldur, ég vona ekki. Ég held að við eigum að senda mjög skýr skilaboð. En ég velti vöngum yfir kvótavæðingunni af því að við vitum hvernig verðmætin urðu til, hvernig þau hafa fest í sessi og nákvæmlega eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á þá varð það sem var upphaflega notkunarleyfi, sem var rétturinn til að fá að nýta auðlind sem þjóðin átti og alls staðar verið sett í lög að þjóðin ætti auðlindina og upphaflega mátti ekki framselja hana eða neitt slíkt, allt í einu varð þetta orðið ígildi einkaréttar. Allt í einu er það orðið álitamál hvort taka megi nýtingarleyfin og úthluta þeim með öðrum hætti. Vekur þetta engar áhyggjur? Er það bara hjá mér? Hvað með mjólkurkvótann, aðgang nýliðanna að því umhverfi þegar menn flytja úr sveitunum, selja kvótann og aðrir hafa ekki efni á að kaupa hann og búsetja sig á jörðunum? Var það hugmyndin með kerfinu upphaflega? Það var verið að hagræða, þess vegna var settur kvóti, það var verið að tryggja náttúruna, allt góð markmið. En afleiðingarnar eru að þetta er meira og minna komið í einkaeign, eða hvað? Við eigum hugsanlega eftir að takast á um þetta í sambandi við sjávarútveginn og kannski leysist þetta með mjólkurkvótanum því að þar er svo mikil eftirspurn að hún er langt umfram heimildir sem þar eru til, en þar er þó ekki sjálfkrafa úthlutað viðbótarkvóta á þá sem fyrir hafa mjólkurkvóta, viðbótarmjólkurkvóta eins og er gert í sjávarútveginum.