144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég verð að viðurkenna að mér finnst sú hætta vera fyrir hendi, þ.e. að við séum að stíga örlagaríkt skref sem gæti orðið til þess að við værum að skilgreina réttinn til nýtingar með þeim hætti að hægt verði að selja aðgang að okkar helstu náttúruperlum sem eru í einkaeign. Sumum finnst þetta allt í lagi. Ég er sjálfur andsnúinn þessu og tel að við eigum að halda í þennan sameiginlega rétt okkar, sameiginlega eign á landinu, sameiginlega nýtingu á landinu en um leið er mjög áríðandi að ítreka að við erum öll sammála um þau markmið sem verið er að setja með náttúrupassanum, það að fara út í að lagfæra ferðamannastaði, tryggja öryggi á ferðamannastöðum, ganga betur frá í umhverfinu þannig að það þoli þann ágang sem fylgir auknum ferðamannastraum. Það er ekki það sem ágreiningurinn snýst um. Það er hvernig við gerum það.